Úrlausnir.is


Merkimiði - Hrd. 1939:319 nr. 96/1938 (Síldartorfa)

Síað eftir merkimiðanum „Hrd. 1939:319 nr. 96/1938 (Síldartorfa)“.

Í málinu var krafist skaðabóta vegna tjóns af árekstri skipa er átti sér stað 25. júlí 1937. Aðilar málsins, fyrirtækið h/f Alliance (A) (vegna skipsins b/v Hannes ráðherra) og Ólafur B. Björnsson kaupmaður (B) (vegna skipsins l/v Ólafur Bjarnason), kröfðu hvorn annan um bætur vegna árekstrar skipa þeirra. Töldu aðilar málsins báðir að hinn ætti að bera alla sök á árekstrinum.

Þrjú skip voru í átt að síldartorfu þann dag og voru á mikilli ferð og stefndi í árekstur. Skipstjórinn á skipi A kvaðst hafa gefið merki sem var eitt langt hljóð með eimpípu togarans sem átti að merkja að hans skip héldi áfram í beinni stefnu. Norskt skip hafi vikið frá en skip B gerði það ekki. Skipstjórinn gaf sams konar hljóðmerki 4-5 mínútum síðar en samt sem áður hélt skip B áfram í sömu stefnu. Þegar fjarlægðin var um tvær skipslengdir hafi skipið B gefið þrjú stutt hljóðmerki með eimpípu sinni, er átti að merkja að hans vél ynni aftur á bak. Skipstjórinn á skipi A hafi við hljóðmerki gefið skipun um að stöðva vélina og bjóst hann við að skip B myndi framkvæma í samræmi við merkið eða beygja á stjórnborða. Hvorugt átti sér stað og rakst skip B á hlið skips A í allmikilli ferð.

Samkvæmt leiðarbók skips B hafði skip A gefið eitt stutt hljóðmerki sem væri merki um að hann hygðist snúa á stjórnborða. Í henni var getið að þegar hætta var á ásiglingu hafi verið gefið skipun um að láta vélina ganga aftur á bak og þrjú stutt hljóðmerki. Hins vegar skipstjórinn eftir því að ein framfesti nótabátanna var komin í skrúfuna og hafi ekki þorað öðru en að láta stöðva vélina og snúa skipinu strax á stjórnborða en það hafi verið of seint.

Eigandi skips B hélt því fram að þrátt fyrir að skip A ætti bóginn hefði skipið B réttinn að síldinni þar sem hann hafi verið nær henni frá upphafi á grundvelli óskráðra laga meðal síldveiðimanna sem gildandi siglingareglur þokuðu fyrir og hefði skip A þá átt að víkja. Eigandi skips A andmælti því að hitt skipið hefði verið nær og þar að auki tilvist þeirrar óskráðu reglu. Rétturinn taldi sig ekki geta staðhæft um tilvist slíkrar reglu gegn andmælum hins aðila málsins.

Skipstjórinn á skipi B sagði fyrir réttinum að hann hefði ekki hagað sér öðruvísi þótt hljóðmerki hins skipsins hefði heyrst sem langt, og var því talið að það atriði hefði enga þýðingu að því leyti. Talið var að skip B hefði átt að víkja fyrir skipi A samkvæmt siglingareglum og hefðu þar að auki ekki átt að setja nótabáta í sjó á mikilli ferð, sem torveldaði stjórn á skipinu, og hefðu átt að gefa merki um að skipið léti ekki að stjórn. Stjórnendur skips B áttu því sök á umræddum árekstri og eigendur hans ættu að bera ábyrgð á tjóninu sem skip A varð fyrir.

PDF-eintak af úrlausninni

Sýna merkimiða.
ⓘ = Hlekkurinn inniheldur nánari upplýsingar um efni merkimiðans.