Úrlausnir.is


Greinar

Greinar - Listi
Athugið að greinarnar eru lifandi plögg og gætu því tekið (miklum) breytingum umfram einfaldar leiðréttingar og viðbætur.
Ekkert í þessum greinum ætti að túlka sem lögfræðilega ráðgjöf og ætti ekki að byggja á neinu hér nema bera fyrirhugaðar gjörðir fyrst undir fagmanneskju á viðkomandi sviði.

Nokkur atriði um lögfræði og málarekstur sem fólk misskilur oft

Fólk getur oft orðið pirrað út í lögfræðinga og lögmenn þegar það vill álit þeirra. Af þessu tilefni eru nokkur atriði sem vert er að íhuga til að auka líkurnar á góðum viðræðum við löglært fólk og einkum ef það er að íhuga málsókn.

Þau löglærðu eru einnig fólk.
Þau sem stunda lögfræði af áhuga eða starfi eru einnig fólk. Sum hver hlægja meira að segja að lögfræðingabröndurum.

Lögfræðingur og lögmaður er ekki það sama.
Lögfræðingur er einhver sem hefur útskrifast með námsgráðu í lögfræði á meðan lögmaður er lögfræðingur sem hefur starfsréttindi til að flytja mál fyrir dómi. Allir lögmenn eru lögfræðingar en ekki allir lögfræðingar eru lögmenn.

Orðasamsetningin „meintur brotaþoli“ er (oftast) notað með röngum hætti.
Fólk notar oft orðasamsetninginu „meintur brotaþoli“ þegar það vill tjá að tjón þolanda meints afbrots er ósannað. Rétt er að til þess að einhver teljist vera brotaþoli þurfi hlutaðeigandi að „[kveðast] hafa orðið fyrir misgerð af völdum afbrots“ eða fjárhagslegu tjóni, sem sagt engin krafa um að sönnunargögn liggi fyrir eða jafnvel að staðhæfing um slíkt sé sönn. Ef það eru (réttmætar) efasemdir um hvort einhver tiltekinn telji sig hafa orðið fyrir slíkri misgerð eða fjárhagstjóni, þá fyrst kæmi til greina að vísa til hlutaðeigandi sem meints brotaþola.

Lög eru sjaldnast bókstafleg.
Þegar fólk les lög vill það oft túlka þau bókstaflega og gerði ég það sjálfur áður fyrr. Auk þess vill fólk oft túlka orðin í eins rúmum skilningi og hentar þeirra tilviki. Í lögfræðinni er mikilvægt að íhuga allar hliðar máls, hvort sem það ert þú, hinn aðilinn, eða eftir atvikum þriðji aðilinn. Þetta leiðir oft til þess að fólk verði pirrað yfir þeim löglærðu fyrir að taka ekki undir með þeim þegar það finnur lagagrein sem á að leysa mál þeirra fyrir fullt og allt.

Lagatúlkun er ekki endilega svo einfalt verk.
Það er góð ástæða fyrir því að laganámið er margra ára strembið nám. Löglærða fólkið gæti þurft að fara í mikla rannsóknarvinnu til að álykta um merkingu lagagreinar. Meðal atriða sem gæti þurft að rannsaka er greinargerð frumvarpsins, saga lagaákvæðisins, hvað dómstólar hafa áður sagt um það ákvæði eða um sambærilegt álitaefni, allt í þeim tilgangi að reyna að sjá fyrir hvernig dómstólar myndu afgreiða málið í dag.

Þá gæti hinn löglærði þurft að meta aðrar staðreyndir í málinu sem gætu skipt máli, og til þess þurft að spyrja frekari spurninga. Ef löglærða fólkið gætir ekki að þessu, þá gæti það veitt falskar vonir, ráðlagt rangar aðgerðir eða orsakað aðgerðaleysi hlutaðeigandi, allt sökum staðreyndar sem ekki var spurt um eða misskilnings og réttar upplýsingar og skilningur hefði breytt öllu. Rangt mat gæti leitt til þess að hinn löglærði lendi illa í því, hvort sem það er fjárhagslega eða ófjárhagslega. Fyrirvarar eru oft algengir hjá þeim löglærðu og er mikilvægt að taka þeim alvarlega.

Einn galli gerir ekki alltaf út af við mál.
Þegar fólk sér erlenda þætti og myndir telur það oft að ef einn galli sé á málatilbúnaði hins aðilans, þá sé það svo gott sem búið að vinna málið. Í raun er það oftast undantekningatilvik að það gerist, einkum ef atriðið er matskennt. Á Íslandi þarf ólögleg húsleit ekki endilega að leiða til þess að allt sem fannst við þá leit sé ónothæft sem sönnunargögn, og í raun gildir það sama í Bandaríkjunum (þó það sé algengara að slíkt gæti gerst þar á landi).

Dæmdur málskostnaður er sjaldnast jafnhár og sá sem þú greiðir þínum lögmanni.
Því miður er það raunin að dómstólar eru afar tregir til þess að dæma málskostnað nákvæmlega eftir málskostnaðaryfirlitinu sem lögmaður málsaðila leggur fram. Þetta leiðir til þess að málsaðilinn sem sigrar þarf að dekka restina á eigin spýtur, og gæti restin eftir atvikum verið hærri en hvers kyns aðrar fjárhæðir, eins og skaðabætur og miskabætur, sem málsaðilinn fær frá þeim sem lýtur lægra haldi. Ástæðan er mögulega sú að dómstólar vilja tempra málsaðila frá því að stofna til óþarfa kostnaðar og umstangs í kringum mál til þess eins að láta hinn aðilann borga meira í málskostnað.

Þetta á í grunni séð einnig við um sakamál, nema þar greiðir ríkið verjandanum þá upphæð sem er dæmd og svo fer eftir málalokum hvort það má endurkrefja ákærða þá upphæð. Hinn ákærði og verjandinn semja svo um greiðslu þess sem á vantar, óháð því hvernig málið fer.

Ekkert dómsmál telst vera „slam dunk“.
Fólk fyllist oft oftrú um að þeirra mál sé það öruggt að dómstólar geti varla komist að annarri niðurstöðu en að dæma þeim í vil. Slíkt getur sérstaklega átt sér stað ef um er að ræða málstað sem fólkið í nærumhverfinu er fylgjandi og hvetur hlutaðeigandi til dáða. Þetta getur leitt til þess að fólk sé gjarnara á að synja öðrum úrræðum eins og sáttum og samningaviðræðum án frekari skoðunar. Svo heldur þetta áfram og á meðan hleðst kostnaðurinn upp sem leiðir til þess að málareksturinn verður dýrari og dýrari. Ekki ætti að túlka þetta sem svo að fólk ætti ætíð að hörfa, en það ætti allavega að líta á þann möguleika að það gæti tapað málinu og vera undir það búið að það gæti verið hin endanlega niðurstaða.

Úrskurður og dómur eru ekki samheiti.
Í fjölmiðlum er oft ruglað saman hugtökunum úrskurður og dómur og eitt þeirra notað þegar hitt á við. Úrskurður er notað yfir úrlausn dómstóls sem fjallar um formatriði máls þó í einstaka málaflokkum séu kveðnir upp úrskurðir sem undir öðrum kringumstæðum teldust dómar. Dómur er úrlausn dómstóls eftir að dómari máls (eða dómarar) hefur heyrt ræður málflytjenda um efnishlið máls. Eftir atvikum geta dómstólar einnig kveðið upp ákvarðanir en þau atriði sæta (almennt séð) ekki endurskoðun æðra dómstóla ein og sér, heldur þurfa þau að bíða þar til önnur atriði liggja fyrir. Ef það er óvissa um hvaða hugtak ætti að nota er áreiðanlegast að nota sama hugtak og er í titli þeirrar úrlausnar. Jafnvel dómstólar eiga það til að ruglast á hugtökunum en það er nokkuð sjaldgæft.

Að stefna, kæra, og ákæra.
Fólk á það til að ruglast á því hvað felst í því að stefna, kæra og ákæra einhvern í tengslum við dómsmál. Að stefna einhverjum er oftast notað í einkamáli yfir það að skora á þann sem er stefnt til að mæta fyrir dómstól til að svara fyrir kröfur í einkarétti, og nafnorðið stefna er skjalið sem móttakandinn tekur við sem inniheldur meðal annars kröfur stefnanda ásamt helstu röksemdum fyrir því að þær ættu að hljóta framgöngu. Kæra er notað í tengslum við sakamál þegar aðili fer til lögreglu og sakar einhvern um að hafa framið lögbrot. Hins vegar er hugtakið kæra einnig notað í tengslum við málskot úrskurða til annars dómstóls óháð því hvort það er einkamál eða sakamál. Ákæra er nafnið yfir stefnur sem ákæruvaldið gefur út þar sem krafist er refsingar einhvers, svo sem fangelsis eða sektar, vegna meints afbrots.

Frávísun og sýkna.
Frávísun merkir það þegar dómkröfu er vísað frá án þess að tekin sé efnisleg afstaða til málavaxta. Það getur gerst að það séu ágallar á málinu hvað þá kröfu varðar eða málið í heild.
Sýkna á sér stað þegar dómari hefur hlustað á efnislegan málflutning fyrir dómi og tekið efnislega afstöðu um að ekki eigi að verða við þeirri kröfu sem sýknað er af.
Þegar máli er vísað frá er (oftast nær) möguleiki fyrir þann sem sækir málið að reyna aftur, jafnvel með lagfæringum þeirra ágalla sem áttu við í fyrri skiptum, en athuga þarf samt að dómstólar hafa takmarkaða þolinmæði fyrir síendurteknum tilraunum. Í tilviki sýknudóma má (þessi) sækjandi máls ekki reyna að fá aðra úrlausn um sama sakarefnið gagnvart sama aðilanum (en athuga þó undantekningu með sýknu að svo stöddu).

Höfundur: Svavar Kjarrval
Greinin var fyrst birt þann 9. febrúar 2022 en seinast efnislega uppfærð þann 29. mars 2022.