Greinar - Listi
Athugið að greinarnar eru lifandi plögg og gætu því tekið (miklum) breytingum umfram einfaldar leiðréttingar og viðbætur.
Ekkert í þessum greinum ætti að túlka sem lögfræðilega ráðgjöf og ætti ekki að byggja á neinu hér nema bera fyrirhugaðar gjörðir fyrst undir fagmanneskju á viðkomandi sviði.
Atriði varðandi lög og lögskýringargögn
Þetta er nokkurs konar gátlisti yfir atriði sem bæði löglært og ólöglært fólk ætti að hafa í huga við skoðun laga og lögskýringargagna.
Listanum er hvorki ætlað að vera tæmandi né vera staðganga kennslu í túlkun laga.
Sum atriðanna gætu verið tímafrek eða ónauðsynleg í sumum tilvikum, og þarf lesandinn því að meta það í hvert sinn hversu mikil þörf sé á djúpri rannsókn.
Lagasafnið
Dagsetningin sem er efst á lagasafninu fyrir neðan nafn laganna er sá dagur sem forseti Íslands (eða handhafar forsetavalds) staðfesti frumvarpið sem lög.
Birting í Stjórnartíðindum fer sjaldnast fram samdægurs, og gæti eftir atvikum verið gagnlegt upp á lagaskil að staðfesta birtingardag í Stjórnartíðindum.
Tilvitnanir í lagatexta, sem er í lagasafninu, ættu almennt að vera án hornklofa (þ.e. [ og ]) og annað sem er notað til þess að tákna breytingar á greininni eða sem notað er til að setja inn athugasemdir.
Þetta eru merkingar sem tilheyra lagasafninu sjálfu en eru ekki hluti lagatextans sem slíks.
Hreinsun er bersýnilega óþörf ef ætlunin er að vekja athygli á breytingunum eða athugasemdunum sem þar gætu fundist.
Lagasafnið er ekki óskeikult.
Stundum eru greinar felldur úr lagasafninu án þess að þær hafi verið brottfelldar með lögum, t.a.m. í tilviki gildistökuákvæða eða tímabundinna ákvæða.
Ef lagagreinin hefur talsvert mikilvægu hlutverki að gegna gæti verið ráðlagt að rekja sig í gegnum upprunalegu lagagreinina í Stjórnartíðindum og fara í gegnum breytingarlögin (ef við á) til að staðfesta að útgáfan í lagasafninu sé örugglega rétt.
Sé rekist á vankanta á lagasafninu má endilega láta ritstjóra þess vita.
Lagabálkurinn, og mögulegar síðari breytingar
Gildissvið: Athuga ætti hvort álitaefnið falli inn í gildissvið lagabálksins, bæði það sem er skilgreint fremst en einnig athuga hvort það sé einnig aftarlega.
Markmiðsgrein: Hafa hana í huga við túlkun annarra greina.
Orðskýringar: Ef lagabálkurinn inniheldur orðskýringar, er ágætt að renna yfir þau hugtök sem tengjast því atviki sem verið er að skoða.
Lagaskil: Sérstaklega ef álitaefnið varðar eitthvað sem átti sér stað í tíð eldri laga, þá ætti að athuga hvort einhver fyrirmæli sé að finna um lagaskil og hvort þau eigi við.
Í einstaka skipti eru sett sérstök fyrirmæli um lagaskil breytingarlaga í lagabálkinn sjálfan.
Ákvæði til bráðabirgða: Athugaðu hvort eitthvert ákvæðið til bráðabirgða eigi við um tilvikið sem er til skoðunar.
Eftir atvikum gæti verið tilefni til að skoða og meta gildi brottfelldra ákvæða til bráðabirgða.
Breytingarlög: Hafi lagagrein, er tekur á álitaefninu, verið breytt síðar með breytingarlögum ætti einnig að skoða frumvarp þeirra breytingarlaga.
Breytingarlög gætu einnig haft ákveðin fyrirmæli um gildissvið þeirra og lagaskil, sem rata ekki í lagabálkinn sjálfan.
Frumvarpið á Alþingi, og breytingar á þinginu
Áður en byrjað er að lesa athugasemdir við tilteknar greinar frumvarps er ágætt að bera saman greinina eins og hún er í frumvarpinu saman við þau lög sem voru að endingu samþykkt.
Þetta gæti gagnast til þess að sjá hvort breytingar höfðu verið gerðar á frumvarpinu í meðförum þingsins.
Greinar frumvarps geta riðlast til í meðförum Alþingis þar sem greinum er bætt við eða þær fjarlægðar.
Því er ágæt þumalputtaregla að staðfesta að númer greinarinnar sé hið sama í frumvarpinu og í lögunum áður en farið er í athugasemdir í greinargerðinni við frumvarpið um þá grein.
Ef breytingar áttu sér stað á þinginu, og varða atriðið sem verið er að rannsaka, er enn meiri ástæða til þess að leita eftir afstöðu til breytinganna sem gerðar voru, bæði á þingskjölum og í þingræðum.
Athugasemdir er fylgdu frumvarpinu sjálfu, sem varða atriði sem var breytt síðar í meðförum þingsins, gætu þá fengið minna vægi.
Sé færð fram breytingartillaga en henni synjað, þá gæti það eftir atvikum veitt ákveðnar vísbendingar um afstöðu þingsins.
Mikilvægt er í slíkum tilvikum að meta hvort samhugur hafi verið um forsendur synjunarinnar meðal þeirra sem greiddu mótatkvæði.
Í ákveðnum tilvikum eru til staðar lagaákvæði sem kveða á um að frumvörp um afmörkuð málefni fari fyrst til umsagnar tiltekins aðila áður en þau eru lögð fram (Dæmi: 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2021).
Þó fallist hafi verið á að ógildi almennra stjórnvaldsfyrirmæla ef slíku lögmæltu ferli var ekki fylgt hefur (líklega) ekki reynt á sambærilegt álitamál í tilviki laga.
Greinargerðin og önnur lögskýringargögn
Greinargerðin sem er á þingskjali með frumvarpi er tæknilega séð ekki hluti af frumvarpinu sem slíku, heldur fylgir hún frumvarpinu.
Ekki gleyma að lesa almennar athugasemdir sem fylgdu frumvarpinu, annað hvort áður eða eftir að búið er að lesa um þá einstöku grein.
Yfirlýsingum í greinargerðum ber að sjálfsögðu að taka með fyrirvara, líkt og má sjá af ýmsum dómum sem hafa fallið um gildi greinargerða við lagatúlkun.
Stundum innihalda greinargerðir tilvísanir í eldri framkvæmd eða eldri lagaákvæði, sem gæti þurft að skoða nánar.
Þó þingnefnd færir ekki fram breytingartillögu gagnvart þeirri grein frumvarpsins í sinni afgreiðslu, gæti hún tekið upp á því að árétta að nefndin hafi tiltekna túlkun á frumvarpinu.
Fyrir nýlegri stjórnarfrumvörp gæti verið tilefni til að athuga fyrri útgáfur frumvarpanna, svo sem inn á samráðsgáttinni.
Að jafnaði er minnst á það í greinargerðinni ef frumvarpið fór þangað.
Höfundur: Svavar Kjarrval
Greinin var fyrst birt þann 16. mars 2022 en var seinast uppfærð þann 29. mars 2022.