Greinar - Listi
Athugið að greinarnar eru lifandi plögg og gætu því tekið (miklum) breytingum umfram einfaldar leiðréttingar og viðbætur.
Ekkert í þessum greinum ætti að túlka sem lögfræðilega ráðgjöf og ætti ekki að byggja á neinu hér nema bera fyrirhugaðar gjörðir fyrst undir fagmanneskju á viðkomandi sviði.
Ritun erfðaskráa
Einhver atriði sem fólk ætti að hafa í huga við ritun erfðaskrár (sem eru alls ekki tæmandi).
Hvað ef engin erfðaskrá er til staðar?
Núgildandi erfðalög, nr. 8/1962, kveða á um að svokallaðir skylduerfingjar skuli fá einhvern arf óháð tilvist erfðaskrár.
Undir skylduerfingja teljast hjúskaparmaki auk barna hins látna.
Fer um skylduerfingja með þessum hætti:
Hjúskaparmaki fær ⅓ og börnin (kynbörn og kjörbörn) deila jafnt með sér ⅔ (jafnvel þótt það sé einvörðungu eitt barn).
Ef eitthvert barnanna er látið en þau eiga börn, þá gilda svokallaðar staðgöngureglur sem rætt er í sér spurningu.
Ef enginn hjúskaparmaki er til staðar skiptist sá hlutur milli barnanna, og sambærilegt ef það er hjúskaparmaki en engin börn.
Hafi einhver hlotið arf á þessu stigi er ekki farið lengra.
Athuga þarf að í þessum skilningi er um að ræða hjúskaparmaka sem er ekki skilinn að borði og sæng, né lögskilinn, né ef hjúskapurinn var ógiltur með dómi eða er ógildanlegur við andlát (og nánar tiltekin atriði eiga við).
Í tilviki tvíkvænis tekur fyrri hjúskaparmakinn arf sem hjúskaparmaki, ef hann er á lífi og er arfgengur. [26. gr. erfðalaga, nr. 8/1962]
Sé enginn skylduerfingi til staðar (né erfðaskrá), þá skiptist arfurinn jafnt á milli foreldra arfleifanda og niðja þeirra (eftir nánari reglum þar um).
Ef enginn hefur hlotið arf enn, þá fer hann til móður- og föðurforeldra arfleifanda eftir nánari reglum þar um (en þó ekki sömu staðgöngureglum og í fyrri skrefum).
Ef öll fyrri skref eru þrotin án þess að nokkur hafi hlotið arf, þá fer arfurinn í ríkissjóð.
Hvað eru staðgöngureglur?
Staðgöngureglur í erfðarétti eru fyrirmæli um hvað skuli gert í þeim tilvikum sem einhver, sem hefði þegið arf í lifanda lífi, er látinn.
Þegar barn hins látna, B, er sjálft látið, en það á sjálft barn á lífi (þ.e. C), þá myndi C fá arfinn sem hefði ella farið til B.
Eigi B meira en eitt barn skiptist hlutur B jafnt á milli þeirra.
Ef B er ekki á lífi og heldur engir niðjar B, þá er arfinum skipt eins og B sé ekki þarna.
Svo sem ef B á systkini á lífi, að þá fá þau meira í sinn hlut.
Þetta gengur svo niður erfðakeðjuna eins langt og þörf er á og eingöngu gegnum börn (en ekki maka).
Athuga þarf að staðgöngureglurnar eiga ekki sjálfkrafa við um einhvern sem fær bréfarf, nema erfðaskráin tilgreini að þær gildi í því tilviki.
Hvenær má gera erfðaskrá?
Erfðaskrá má í sjálfu sér gera hvenær sem er, að því gefnu að arfleifandinn hafi svokallað arfleiðsluhæfi þegar erfðaskráin er gerð, sem fjallað er nánar í 34. gr. erfðalaganna.
Hana má gera þótt skylduerfingjar séu til staðar.
Ekki er skilyrði að arfleifandi sé lögráða við gerð erfðaskrár.
Hvaða áhrif hefur erfðaskrá?
Arfleifandi má ráðstafa allt að ⅓ eigna sinni með erfðaskrá og kallast sá arfur bréfarfur.
Ef skylduerfingjar eru til staðar, þá er ⅓ eignanna úthlutað samkvæmt erfðaskránni og svo skipta skylduerfingjarnir með sér restinni samkvæmt þeim reglum og hlutföllum sem áður hafa komið fram.
Heimilt er að nýta bréfarfinn til þess að auka við hlut tiltekins skylduerfingja eða láta annan lögerfingja fá arf (eins og tiltekna frænku eða frænda).
Hægt er, innan ákveðinna marka, að tilgreina að skylduerfingi skuli fá tiltekna eign arfleifanda úthlutaða, hvort sem það er innan skylduarfs eða bréfarfs. [2. mgr. 36. gr. erfðalaga, nr. 8/1962]
Sé það ekki gert munu arfþegarnir ákveða það sín á milli eða skiptastjóri.
Arfleifanda er heimilt að kveða á um að arfur hans, bæði skylduarfur og bréfarfur, skuli vera séreign í hjúskap erfingjans. [1. mgr. 77. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993]
Ef enginn skylduerfingi er til staðar er arfleifanda heimilt að ráðstafa öllum sínum arfi sem bréfarfi. [35. gr. erfðalaga, nr. 8/1962]
Þegar arfur er bréfarfur er arfleifanda heimilt að setja ýmis skilyrði um meðferð hans, þannig að eftir atvikum væri hægt að úthluta honum til skylduerfingja og hengt á hann auka skilyrði sem ekki eru í boði fyrir skylduarf. [52. gr. erfðalaga, nr. 8/1962]
Þannig séð er einnig hægt að tilgreina að bréfarfi skuli úthlutað með sama hætti og skylduarfinum nema ekki til erfingja X, og með því lækkað þann arf sem sá skylduerfingi hefði ella hlotið.
Hvaða aðferðir eru í boði til að láta einhvern öðlast arf, sem annars hefði ekki hlotið hann?
Sem dæmi um aðila sem ekki hljóta sjálfkrafa arf eftir íslenskum lögum eru fósturbörn, stjúpbörn, og sambúðarmaki.
Ein aðferð er að veita þeim bréfarf, til að mynda með fyrirmælum um að sé bæði sambúðarmaki og niðji til staðar, að sambúðarmaki skuli fá ⅓ hlutann sinn með bréfarfinum.
Sambærileg fyrirmæli gætu verið veitt varðandi úthlutun til fósturbarna og stjúpbarna, en gæta sín þó að tilgreina að allt að ⅓ hluti gæti verið nýttur til þess.
Hins vegar þarf að muna að tilgreina að ef eingöngu einn þessara aðila sé á lífi, þá skuli hlutaðeigandi fá allan arf (nema það séu aðrar óskir).
Sé ætlunin að leyfa niðjum hlutaðeigandi arfþega að geta notið góðs af honum, í tilviki andláts ætlaðs arfþega, að tilgreina að ætlunin sé að staðgöngureglurnar gildi í því tilviki.
Hvað má ekki vera í erfðaskrá?
Eins og lögin eru núna eru nokkur atriði sem ekki mega vera í erfðaskrá eða í réttara lagi að þau verða ekki framkvæmd séu þau til staðar.
Eftir atvikum munu önnur atriði erfðaskrárinnar þó vera framkvæmd eins og hin óheimiluðu fyrirmæli væru ekki þarna.
Ákvæði sem er í erfðaskránni sökum misskilnings, ef talið er að ranghugmynd arfleifanda hafi ráðið úrslitum um að það sé þarna eða sé þarna í þeirri mynd sem það varð. [38. gr. erfðalaga, nr. 8/1962]
Fyrirmæli um að spilla eigum arfleifandans, nema réttlætt með ástæðum er teljast eðlilegar og skynsamlegar. [39. gr. erfðalaga, nr. 8/1962]
Skilyrði um kvaðir á eignum úthlutuðum sem skylduarfi, nema skilyrðið hafi (næga) stoð í lögum.
Úthlutun eigna sem eru ekki í dánarbúi arfleifanda.
Að skylduerfingi missi allan erfðarétt eða lækkun á skylduarfi hans, nema lagaskilyrði séu fyrir hendi. [IV. kafli erfðalaga, nr. 8/1962]
Skilyrði sem er ómögulegt að uppfylla eða alltof erfitt að framfylgja.
Í þeim tilvikum er mögulegt að erfinginn hljóti eignina án þeirra skilyrða.
Hvernig verður erfðaskráin túlkuð?
Í erfðarétti gildir svokölluð viljakenning, en í grófum dráttum þýðir hún að fyrirmæli í erfðaskrá (sé hún gild) eru túlkuð eins nálægt vilja arfleifandans og mögulegt er. [2. mgr. 37. gr. erfðalaga, nr. 8/1962]
Það er ekki bráðnauðsynlegt að nota rosalega formlega íslensku eða hárrétta stafsetningu, svo framarlega sem viljinn kemur nógu skýrt fram.
Gæta þarf samt að slæmt málfar og slæm stafsetning gæti, eftir atvikum, aukið líkurnar á að erfðaskráin verði mistúlkuð eða a.m.k. að deilur spretti upp um túlkun.
Ef einhver vafi er á fyrirmælunum er reynt að ráða hann eftir öðru sem stendur í erfðaskránni.
Því gæti verið ráðlagt, eftir atvikum, að hafa textann ekki of knappan og mögulega (einnig) rita tölur og hlutföll með bókstöfum (t.a.m. ‚X fær ⅓ (þriðjungshlut) af arfinum‘ eða ‚X fær 1.000.000 (eina milljón) krónur‘).
Þá þarf að huga að því að ókunnugur þriðji aðili gæti lent í því að túlka viljann, stundum löngu eftir að erfðaskráin var rituð, og því væri fyrir bestu að vísa til fólks og hluta með rekjanlegum hætti.
Dæmi um þannig vafa væri ef það stæði „besti vinur minn hann Jói skal fá allan bréfarf“ en svo gæti það hafa gerst að Jói sé látinn, slitnað hafi verið úr vinskapnum, eða erfingjar séu óvissir um hvaða Jóa sé verið að vísa til.
Til að forðast svona væri betra að nota fullt nafn Jóa og mögulega einnig fæðingardag hans.
Sé bréferfingi ekki lengur á lífi eða ekki hægt að finna út hver hann er með nægjanlegri vissu, og ekki er tilgreint hvað skuli gert í slíkum tilvikum, þá er erfðaskráin framkvæmd eins og þau fyrirmæli séu ekki til staðar.
Aðgát við uppfærslu erfðaskrár
Kröfurnar til að afturkalla erfðaskrá eru ekki eins strangar og þarf til að breyta erfðaskrá eða gera nýja.
Upp hafa komið aðstæður þar sem afturköllun eldri erfðaskrár var hluti hinnar nýju erfðaskrár og dæmt að afturköllunin væri gild þótt nýja erfðaskráin væri ógild, og áhrifin urðu þau að engin gild erfðaskrá væri til staðar. [Hrd. 1960:420 nr. 28/1960 (Sumargjöf)ⓘ]
Sé ætlunin að afturkalla fyrri erfðaskrá samhliða þess að setja nýja, ætti að tilgreina við afturköllunina að gildi hennar sé háð því að nýja erfðaskráin sé gild.
Séu gerðar fleiri erfðaskrár er hægt að orða það þannig að allar fyrri erfðaskrár viðkomandi aðila eru afturkallaðar, og sú afturköllun sé gild ef erfðaskráin sem verið er að setja sé gild.
Aðstæður breytast
Athuga þarf að aðstæðurnar gætu breyst frá því að erfðaskráin var samin og þar til arfinum er deilt út.
Það gæti reynt á erfðaskrána strax daginn eftir eða jafnvel eftir 70 ár.
Maki gæti verið kominn inn í líf arfleifanda og/eða út úr myndinni sökum andláts eða skilnaðar, og mögulega gæti verið kominn nýr maki eftir það.
Börnin gætu verið fleiri eða færri (þó maður voni að hið síðarnefnda gerist ekki í sínu lífi).
Þriðji aðili sem átti að fá bréfarf er ekki lengur til staðar (á lífi).
Eign sem ætlað er að úthluta með erfðaskrá er ekki lengur í eigu arfleifanda eða ekki í þeirri mynd sem upprunalega var gert ráð fyrir.
Verulegar breytingar gætu orðið á því sem er til úthlutunar, svo sem virði arfsins, hvort sem það er til bóta eða böls.
Aðstæður gætu hafa breyst en arfleifandinn getur ekki gert nýja (gilda) erfðaskrá eða breytt þeirri eldri sökum þess að hann hefur tapað arfleiðsluhæfinu í millitíðinni.
Í ljósi þessa er ágætt að semja erfðaskrána með það í huga að síst þurfi að uppfæra hana í sífellu í ljósi nýrra aðstæðna.
Höfundur: Svavar Kjarrval
Greinin var fyrst birt þann 30. september 2022. Henni var síðast breytt þann 21. janúar 2024.