Merkimiði - Lög um breyting á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 42 13. maí 1977 og lög nr. 67 30. maí 1979, nr. 38/1981
Niðurhala PDF eintaki þessarar auglýsingar Stjórnartíðinda: Skannað eintak úr prentaðri útgáfu Stjórnartíðinda Athugið: Inniheldur ekki síðari breytingar á auglýsingunni (ef einhverjar), og mögulega ekki leiðréttingar sem gætu hafa verið gerðar á auglýsingunni.
Hrd. 1998:4076 nr. 145/1998 (Desemberdómur um stjórn fiskveiða - Valdimarsdómur)[PDF] Sjávarútvegsráðuneytið synjaði beiðni umsækjanda um almennt leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni auk sérstaks leyfis til veiða á tilteknum tegundum. Vísaði ráðherra á 5. gr. þágildandi laga um stjórn fiskveiða sem batt leyfin við fiskiskip og yrðu ekki veitt einstaklingum eða lögpersónum. Forsenda veitingu sérstakra leyfa væri að viðkomandi fiskiskip hefði jafnframt leyfi til veiða í atvinnuskyni, og var því þeim hluta umsóknarinnar um sérstakt leyfi jafnframt hafnað.
Umsækjandinn höfðaði mál til ógildingar þeirrar ákvörðunar og vísaði til þess að 5. gr. laganna bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem og ákvæðis hennar um atvinnufrelsi. Héraðsdómur sýknaði íslenska ríkið af þeirri kröfu en Hæstiréttur var á öðru máli. Hæstiréttur taldi að almennt væri heimilt að setja skorður á atvinnufrelsi til fiskveiða við strendur Íslands, en slíkar skorður yrðu að samrýmast grundvallarreglum stjórnarskrárinnar.
Hæstiréttur taldi að með því að binda veiðiheimildirnar við fiskiskip, hefði verið sett tilhögun sem fæli í sér mismunun milli þeirra er áttu skip á tilteknum tíma, og þeirra sem hafa ekki átt og eiga ekki kost að komast í slíka aðstöðu. Þrátt fyrir brýnt mikilvægi þess að grípa til sérstakra úrræða á sínum tíma vegna þverrandi fiskistofna við Íslands, var talið að ekki hafði verið sýnt fram á nauðsyn þess að lögbinda þá mismunun um ókomna tíð. Íslenska ríkið hafði í málinu ekki sýnt fram á að engin vægari úrræði væru til staðar til að ná því lögmæta markmiði. Hæstiréttur féllst því ekki á að áðurgreind mismunun væri heimild til frambúðar og dæmdi því í hag umsækjandans.