Niðurstaða fyrri deilna aðilanna um eignarhald landsins hafði verið sú að landið væri óskipt sameign þeirra beggja. Hefðbundin nýting sameignarlandsins hafði verið sem beitarland en M sf. hafði stundað á því sauðfjárbúskap og fiskvinnslu. Aðilar höfðu í sameiningu reynt að sporna við uppblæstri á mel sameignarlandsins með því að auka fótfestu jarðvegar. M sf. hefði borið hey í rofabörð og M ehf. dreift áburði og fræjum á svæðið.
M ehf. hélt því fram að M sf. hefði flutt á svæðið fiskúrgang til dreifingar á svæðinu en M sf. hélt því fram að um væri að ræða mold og lífræn efni, þar á meðal fiskslor, sem blönduð væru á staðnum svo þau gætu brotnað niður í tiltekinn tíma. Ýmsir opinberir aðilar skoðuðu málið og sá enginn þeirra tilefni til neikvæðra athugasemda.