Hrd. 233/2011 dags. 18. október 2012 (Kárahnjúkavirkjun)[HTML][PDF] Samið var um árið 2005 um framsal vatnsréttinda á vatnasvæði Kárahnjúkavirkjunar sem reisa átti á svæðinu og að réttarstaðan samkvæmt samningnum yrði að öllu leyti jafngild eignarnámi þeirra réttinda. Á grundvelli samningsins var skipuð sérstök matsnefnd sem ákveða ætti umfang og verðmæti þeirra réttinda. Sumir landeigendanna voru sáttir við niðurstöðuna en margir þeirra ekki.
Hópur landeigenda fór í dómsmál til að hnekkja niðurstöðu nefndarinnar hvað varðaði verðmæti réttindanna, og vísuðu til matsgerðar tveggja dómkvaddra matsmanna. Töldu þeir að nefndin hefði beitt rangri aðferðafræði og því hefðu bæturnar verið alltof lágar.
Hæstiréttur nefndi að þar sem fallréttindi væru afar sérstök þyrfti að beita afbrigðum frá hinum hefðbundnu aðferðum við mat á eignarnámsbótum enda lítill eða enginn virkur markaður fyrir nýtingu slíkra réttinda hér á landi. Hann féllst á aðferðafræðina sem matsnefndin beitti þar sem hún var í samræmi við gildandi réttarframkvæmd í viðlíka málum. Þá þyrfti einnig að hafa í huga þær miklu fjárfestingar er fælust í leit og vinnslu á þeirri orkuauðlind, markað fyrir orkuna, og fleiri atriði. Þó féllst hann á með héraðsdómi að við hæfi væri að hækka þær bætur sem landeigendur áttu að fá samkvæmt matsnefndinni.Hrd. 676/2013 dags. 13. mars 2014 (Fossatún)[HTML][PDF] Heimild veiðifélags Grímsár í Borgarfirði til að nota hús til leigu fyrir ferðamenn á veturna. Í 2 km fjarlægð frá veiðihúsinu var fólk að reka gististöðuna Fossatún og hafði það fólk aðild að veiðifélaginu og voru ósátt við þessa ráðstöfun. Hæstiréttur fjallaði um heimildir félagsins til þessa og nefndi að þar sem lögum um lax- og silungsveiði sleppti ætti að beita ólögfestu reglunum og einnig lögum um fjöleignarhús.