G var sjómaður sem ráðinn var til starfa hjá félaginu I sem leigði skipið af félaginu K. G krafði H, eiganda skipsins, um greiðslu ógreiddra launa vegna starfa á skipi hans. Kröfuna byggði hann á ákvæði siglingalaga um að hann hefði sjóveðrétt í skipinu og heimildarákvæði sömu laga til að sækja fullnustu slíkra krafna hvort sem er hjá eiganda eða skipstjóra þess.
Hæstiréttur skýrði síðarnefnda ákvæðið þannig að það leiddi ekki sjálfkrafa til þess að eigandi skipsins bæri persónulega ábyrgð á greiðslu krafna sem sjóveðréttur væri í, og leit til þess að bæði eldra ákvæðið og hið nýja væru efnislega hin sömu. H hafði ekki persónulega ábyrgst greiðslu á slíkum kröfum og því gæti G ekki beint kröfu sinni til hans. Þá skipti máli að G hafði heldur ekki áður beint launakröfu að I né sótt mál til fullnustu hennar. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.