Halda átti þriðja nauðungaruppboð á fasteign. Fyrir mistök láðist að birta auglýsingu í Lögbirtingablaðinu innan hins lögbundna fjórtán daga frestar, en birta þurfti sérstaka tilkynningu þess efnis í blaðinu þar sem einn uppboðsþolinn var búsettur erlendis með ókunnum dvalarstað. Uppboðshaldarinn felldi því uppboðið niður með úrskurði en sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar.
Að mati Hæstaréttar hefði uppboðshaldarinn, við þessar aðstæður, ekki átt að fella uppboðsmálið niður í heild sinni, heldur boða það á nýju á löglegan hátt án tafar.