Framhald af: Hrd. 427/2007 dags. 24. ágúst 2007 (Stöðugleiki)ⓘ
K og M kynntust árið 1997 og tóku stuttu síðar upp sambúð. Þau eignuðust tvö börn saman, A árið 1998 og B árið 2001. Sambúð þeirra lauk árið 2003. Þau tvö gerðu samkomulag um sameiginlega forsjá barnanna tveggja, en A myndi eiga lögheimili hjá K og B hjá M. Samkomulagið var staðfest af sýslumanni sama ár.
Börnin bjuggu síðan vikulega til skiptist hjá hvoru foreldrinu. Vorið 2006 óskaði K eftir því að lögheimili beggja barnanna yrðu færð til hennar en eftir sáttameðferðina var ákveðið að lögheimilisfyrirkomulagið yrði óbreytt. K vildi flytja inn til annars manns ári síðar en ekki náðust sættir milli hennar og M um flutning barnanna. Hún fór svo í þetta forsjármál.
Hún krafðist bráðabirgðaúrskurðar um að hún fengi óskipta forsjá barnanna, sem var svo hafnað af héraðsdómi með úrskurði en hins vegar var fallist á til bráðabirgða að lögheimili barnanna yrði hjá henni á meðan málarekstri stæði. M skaut bráðabirgðaúrskurðinum til Hæstaréttar, er varð að máli nr. 427/2007, en þar var staðfest synjun héraðsdóms um bráðabirgðaforsjá en felldur úr gildi sá hluti úrskurðarins um að lögheimili beggja barnanna yrði hjá K.
K gerði dómkröfu um að fyrra samkomulag hennar við M yrði fellt úr gildi og henni falið óskipt forsjá barnanna A og B, og ákveðið í dómnum hvernig umgengninni við M yrði háttað. Einnig krafðist hún einfalds meðlags frá M með hvoru barninu.
M gerði sambærilegar forsjárkröfur gagnvart K, og umgengni eins og lýst var nánar í stefnu.
Fyrir héraðsdómi gaf matsmaður skýrslu og lýsti þeirri skoðun sinni að eldra barnið hefði lýst skýrum vilja til að vera hjá móður, en eldra barnið hefði ekki viljað taka afstöðu. Matsmaðurinn taldi drengina vera mjög tengda.
Fyrir Hæstarétti var lögð fram ný matsgerð sem gerð var eftir dómsuppsögu í héraði. Samkvæmt henni voru til staðar jákvæð tengsl barnsins A við foreldra sína, en mun sterkari í garð móður sinnar. Afstaða barnsins A teldist skýr og afdráttarlaus á þá vegu að hann vilji búa hjá móður sinni og fara í umgengni til föður síns. Því var ekki talið að breytingar á búsetu hefðu neikvæð áhrif.
Tengsl barnsins B við foreldra sína voru jákvæð og einnig jákvæð í garð stjúpföður en neikvæð gagnvart stjúpmóður. Hins vegar voru ekki næg gögn til þess að fá fram afstöðu hans til búsetu.
Hæstiréttur taldi með hliðsjón af þessu að K skyldi fara með óskipta forsjá barnanna A og B. M skyldi greiða einfalt meðlag með hvoru barnanna, og rækja umgengni við þau.