Úrlausnir.is


Merkimiði - Hrd. 704/2012 dags. 14. desember 2012 (Sjónarmið / Bein og óbein framlög)

Sönnunarbyrðin fyrir því að annar en þinglýstur eigandi geti krafist eignarhluta liggur hjá þeim aðila er ber uppi þá kröfu. K var talin bera sönnunarbyrði um að hún hefði veitt framlög, bein eða óbein, til eignarinnar.

K og M hófu sambúð apríl-maí 2002 og slitu henni mánaðarmótin janúar-febrúar 2010. Viðmiðunardagur skipta er 1. febrúar 2010, og var ekki gerður ágreiningur um það. Við upphaf sambúðarinnar kveðst M hafa átt verulegar eignir, þar á meðal fengið um 9 milljónir í slysabætur 27. maí 2001. Fyrir sambúðartímann hafi hann fest kaup á íbúð sem síðar seldist fyrir 18,6 milljónir, og hafi fengið 10 milljónir í sinn hlut. Fjárhæðin hafi runnið í raðhús sem keypt var á 20,5 milljónir, og höfðu 11,5 milljónir verið teknar að láni að auki til að fjármagna kaupin. Þá hafi M lagt fram fé til að fullgera húsið og unnið að standsetningu þess ásamt iðnarmönnum. M hafi því átt húsið að öllu leyti áður en sambúð hófst. M er eini þinglýsti eigandi hússins.

Á meðan sambúðartímanum stóð stóð K í umfangsmiklum bifreiðaviðskiptum að frumkvæði M en K hafi verið skráður eigandi þeirra, tryggingataki og annað sem til hafi þurft vegna þeirra viðskipta. M, sem var bifreiðasmiður, gerði þær upp og seldi aftur. Tekjur þeirra af þessu voru töluverðar og hafi K litið svo á að þær hafi verið sameiginlegar. Tekjurnar voru hins vegar ekki taldar fram til skatts. M andmælti staðhæfingu K um að hún hafi átt mikinn þátt í bifreiðaviðskiptum sínum og því að hún hafi í einhverjum tilvikum lagt fram fé til kaupa á bifreiðum í einhverjum tilvikum. M kveðst hafa stundað viðskiptin á eigin kennitölu og hafi í öllum tilvikum séð um að greiða seljendum bifreiða og taka við fé frá kaupendum þegar þær voru svo aftur seldar. Engin gögn lágu fyrir um framlög K til bifreiðakaupa, en á skattframtölum þeirra mátti sjá að K hafi alls keypt og selt 21 bifreið á árunum 2002 til 2009.

Þau eignuðust tvö börn á sambúðartímanum, árin 2003 og 2005, og kveðst K þá hafa verið meira heimavinnandi en M við umönnun þeirra, auk þess að hún hafi stundað nám hluta af tímanum. Þetta hafi valdið því að launatekjur K hafi verið lægri en hjá M og hún hafi þar að auki tekið námslán sem hafi að óskiptu runnið til framfærslu heimilis þeirra. M mótmælti því að námslánið hafi runnið til sameiginlegs heimilishalds. Bæði lögðu þau fram greiðslur vegna kostnaðar vegna heimilisreksturs, en M hafi þó greitt mun meira en K þar sem hann var tekjuhærri.

Fyrir héraði krafðist K þess:
1. Að tiltekin fasteign kæmi við opinber skipti á búi aðila þannig að 30% eignarhlutur kæmi í hlut K en 70% í hlut M.
2. Að aðrar eignir aðila sem til staðar voru við slit óvígðrar sambúðar, þ.e. sumarhús, ökutækjaeign og bankainnistæður á beggja nafni komi til skipta á milli aðila að jöfnu.
3. Að skuld á nafni K við LÍN, eins og hún var við sambúðarslit, komi til skipta á milli aðila að jöfnu.
4. Að skuld á nafni K við skattstjóra miðað við álagningu í ágúst 2011 komi til skipta á milli aðila að jöfnu.
5. Að M beri að greiða K helming húsaleigukostnaðar hennar tímabilið mars 2010 til mars 2012, alls 2 milljónir króna.
6. Að hafnað verði að aðrar eignir eða skuldir verði teknar með í skiptin á búi þeirra en fram koma í dómkröfum K.
7. Að M greiði málskostnað og að M greiði óskipt kostnað við skiptameðferð bús þeirra.

Fyrir héraði krafðist M þess:
1. Að hafnað verði dómkröfum K nr. 1-6 að undanskilinni dómkröfu 4.
2. Að K greiði málskostnað og að M greiði óskipt kostnað við skiptameðferð bús þeirra.

Fyrir héraðsdómi var dómkröfum K ýmist hafnað eða vísað frá dómi nema kröfu um að skattaskuld á nafni K miðað við álagningu í ágúst 2011 komi til skipta milli aðila að jöfnu, en M hafði samþykkt þá kröfu. Kröfum beggja varðandi skiptakostnað var sömuleiðis vísað frá dómi. Forsendur frávísana dómkrafna voru þær að skiptastjóri hafði ekki vísað þeim til héraðsdóms, sbr. 3. tl. 1. mgr. 122. gr. l. nr. 20/1991. Málskostnaður var felldur niður.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms nema að því leyti að K hafi átt 20% eignarhlutdeild í fasteigninni og 15% eignarhlutdeild í sumarhúsinu við fjárslitin. Leit Hæstiréttur svo á málavexti að meðal þeirra hafi verið rík fjármálaleg samstaða milli þeirra, meðal annars í sameiginlegum bifreiðaviðskiptum, hafi K öðlast hlutdeild í eignamyndun á sambúðartímanum. Kaupin á sumarhúsinu voru fjármögnuð með sölu á þremur skuldlausum bifreiðum, ein þeirra var þá í eigu K. Þá breytti Hæstiréttur ákvæðum úrskurðarins um niðurfellingu málskostnaðar, en M var dæmdur til að greiða 600 þúsund í málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði fyrir Hæstarétti.

Úrlausnin á vef Hæstaréttar - PDF-eintak af úrlausninni
RSS-streymi merkimiðans

Athugið að taka ekki þessum listum sem tæmandi.

Yfirlit

Aðrir úrlausnaraðilar
Fara á yfirlit

Aðrar úrlausnir

Fara á yfirlit

Héraðsdómur Reykjaness

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. Q-1152/2022 dags. 31. janúar 2023[HTML]

Fara á yfirlit

Landsréttur

Lrú. 122/2023 dags. 15. maí 2023[HTML]