K og M hófu sambúð haustið 2000 eftir að K flutti til Íslands. Þau gengu í hjúskap árið 2001. Þau eignuðust síðan barnið A árið 2004. K átti fyrir barnið B sem býr hjá K. Þau skildu að borði og sæng árið 2009 og voru ásátt um sameiginlega forsjá beggja á A, að lögheimili A yrði hjá K, og að M myndi greiða K einfalt meðlag.
Ágreiningur kom upp fljótlega eftir skilnaðinn um umgengni A við M og krafðist M úrskurðar sýslumanns og krafðist viku/viku umgengni en K vildi eingöngu umgengni aðra hvora helgi. Sýslumaður kvað upp úrskurð sem fór ákveðna millileið.
M höfðaði mál gegn K þar sem hann krafðist fullrar forsjár barnsins A, að henni yrði gert að greiða honum einfalt meðlag frá dómsuppkvaðningu og að inntak umgengnisréttar yrði ákveðið með dómi.
K gerði einnig kröfu um fulla forsjá og að M yrði áfram gert að greiða henni einfalt meðlag.
M kvað sig hafa rökstuddan grun um ofbeldi sem A yrði fyrir á heimili K, og vísaði til þess að A hafi sagt honum frá tveimur atvikum. Kærasti K átti að hafa ýtt A upp við vegg og skammað A, á meðan K hafi fylgst með en ekkert aðhafst. K sagðist kannast við það atvik en lýst með öðrum hætti. Síðan hafi K átt að hafa rassskellt A með inniskó. K neitaði staðfastlega að það hafi átt sér stað, en viðurkenndi að hafa einu sinni rassskellt B með þeim hætti, en hún hafi einsett sér það að láta slíkt aldrei gerast aftur.
Barnavernd skoðaði aðstæður í ljósi framangreindra atvika ásamt fleiri sem upptalin voru í dómnum. Niðurstaðan var sú að ekki væri tilefni til frekari afskipta miðað við fyrirliggjandi gögn.
Héraðsdómur taldi að þau atvik sem M lýsti fælu ekki í sér ofbeldi og hefðu einar og sér ekki áhrif á niðurstöðu forsjárdeilu þeirra beggja. Þá lægju engin gögn fyrir í málinu sem styddu fullyrðingar M um að A liði illa hjá K. Í matsgerð dómkvadds matsmann kom fram að forsjárhæfni bæði K og M væri mjög góð.
Héraðsdómur taldi í ljósi heildstæðs mats á málavöxtum leiði til þess að K ætti að fara með fulla forsjá með A, og telur upp þrjú atriði sem vegi þyngst:
* Að í fyrsta lagi hafi A búið alla ævi hjá móður sinni og að B búi þar einnig, ásamt því að A gangi vel í skólanum og hafi sterk félagsleg tengsl.
* Í öðru lagi að M sé líklegri en K til að hindra eða takmarka umgengni A við hitt foreldrið sem fengi ekki forsjána. K hafði lýst því að hún sé jákvæð fyrir aukinni umgengni M við A, og hún hafði ekki áður hindrað umgengni í samræmi við úrskurð sýslumanns. M hafi aftur á móti sett fram hugmyndir um takmarkaðri umgengni K við A. M taldi það ekki mikilvægt að A kynntist heimalandi og tungumáli K, en dómkvaddur matsmaður taldi það mikilvægt.
* Í þriðja lagi var K talin vera hæfari uppalanda að ýmsu leyti þó þau bæði séu almennt hæf til að ala upp A. Persónulegir eiginleikar K væru taldir öflugri og uppbyggilegri en hjá M. Þá taldi héraðsdómur að M hefði stöðvað umgengni A við K á veikum forsendum mestallt sumarið árið 2012. M hafði einnig lýst því yfir að ef hann fengi ekki forsjána myndi hann slíta öll tengsl við A, en óljóst var hvort um væri að ræða hótun sem M myndi ekki standa við eða raunverulegan ásetning þegar yfirlýsingin var gefin, en með henni taldi héraðsdómur felast í því að M hefði skort alvarlegt innsæi í þarfir A. Matsmaður hafði lýst því fyrir dómi að slíkar aðgerðir myndu valda barninu verulegu og alvarlegu tjóni.
Héraðsdómur taldi ekki tilefni til að breyta fyrirkomulagi umgenginnar út frá gildandi úrskurði sýslumanns, en ekkert væri því til fyrirstöðu að auka við hana ef K og M kæmu sér saman um það.
Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms með vísan til forsendna hans.