Úrlausnir.is


Merkimiði - Lrd. 578/2018 dags. 8. febrúar 2019 (Rætt við barn)

Á þessari stundu (1. mars 2019) liggja ekki fyrir upplýsingar um að málskotsbeiðni hafi verið send til Hæstaréttar.

K og M voru í sambúð og eignuðust barnið eftir sambúðarslit þeirra. Þau gerðu samkomulag árið 2007 um sameiginlega forsjá barnsins, að lögheimili þess yrði hjá K, og að M greiddi K eitt og hálft meðlag frá þeim degi. Samkomulagið var staðfest af sýslumanni. Enginn skriflegur samningur um umgengni var gerður.

M leitaði til sýslumanns í desember 2016 og krafðist breytingar á samkomulaginu þannig að hann færi einn með forsjá barnsins og greiðslu einfalds meðlags frá K. Sýslumaður vísaði málinu frá þar sem ekki náðist samkomulag milli K og M.

Í dómsmálinu kröfðust K og M óskiptrar forsjár en til vara að hún yrði sameiginleg með lögheimili hjá sér. Bæði gerðu kröfu um að dómstólar kvæðu á um inntak umgengninnar og um greiðslu meðlags af hendi hins.

Þau gerðu bráðabirgðasamkomulag um umgengni við barnið á meðan málið væri rekið fyrir dómstólum. Það hljóðaði upp á jafna umgengni og að barnið myndi eiga greið samskipti við hitt foreldrið á meðan umgengni stæði.

Héraðsdómur úrskurðaði, að kröfu M, til bráðabirgða að lögheimili barnsins yrði hjá honum og að K greiddi honum einfalt meðlag frá úrskurðardegi þar til endanlegur dómur lægi fyrir í málinu. Áður en sá úrskurður var kveðinn var fenginn sálfræðingur til þess að ræða við barnið um afstöðu þess til lögheimilis. Í fyrra viðtali sálfræðingsins við barnið lýsti það hversu leiðinlegt það væri að flytja stöðugt búferlum milli hótela vegna endurtekinna vandamála með myglu. Í seinna viðtalinu var barnið nýflutt inn í nýja íbúð og lýsti því létti og spenningi vegna þess. Barnið leit á báða foreldra sína sem trúnaðarmenn en ræði frekar við móður sína ef það er hrætt eða áhyggjufullt. Barnið var talið skýrt í afstöðu sinni um að það vildi frekar að faðir sinn færi með sín málefni en móðir og að það virðist öruggara í umsjá föður síns þar sem hann reiðist nær aldrei. Barnið kaus sveigjanleika þannig að það gæti hitt hvort foreldrið sem er þegar því hentaði og að umgengni væri sem jöfnust.

Dómkvaddur matsmaður var kallaður í héraði til að meta aðstæður, og skilaði í kjölfarið skýrslu þar sem K og M var lýst. Þá lagði matsmaðurinn persónuleikapróf fyrir barnið og komst að þeirri niðurstöðu að barnið sýndi sterkari og jákvæðari tilfinninga- og umönnunartengsl við föður sinn en móður. Einnig kom fram að barnið væri í nánum og miklum tengslum við föðurætt sína, en nánast hið andstæða varðandi móðurætt sína. Enn fremur var það mat matsmannsins að ekkert benti til annars en að barninu liði vel hjá föður sínum en teldi sig ekki nægilega öruggt hjá móður sinni. Í ljósi þessa taldi matsmaðurinn að viku/viku umgengni hentaði ekki þar sem annað hlutfall yrði betur til þess fallið að koma á meiri ró og festu. Umgengnin gæti, til að byrja með, verið löng helgi aðra hverja viku sem gæti svo þróast út í jafnari umgengni. Matsmaðurinn taldi báða foreldrana vera hæfa til að fara með forsjá en faðirinn væri hæfari.

Að mati héraðsdómara lá ekkert fyrir í málinu að K eða M hefði vísvitandi reynt að hafa áhrif á afstöðu barnsins til málsins en málareksturinn hefði samt óhjákvæmilegt haft slík áhrif. Þá var ekkert sem benti til þess að skoðun barnsins væri ekki sín eigin eða utanaðkomandi áhrif væru svo mikil að ekki væri hægt að byggja á henni.

K byggði málatilbúnað sinn á því að matsgerðin væri röng og byggði á röngum forsendum, en hafði fallið frá kröfu um yfirmat þar sem henni var synjað um gjafsókn vegna kostnaðar af yfirmatsgerð. K kom ekki með sannfærandi rök sem gæfu ástæðu til þess að efast um réttmæti þeirra upplýsinga sem matið byggði á.

M sakaði K um að tálma umgengni hans við barnið á tímabili. K neitaði sök þar sem ekki væri í gildi umgengnisamningur og að M hefði hitt barnið á því tímabili. Framburður lá fyrir dómi um að M hefði einungis hitt barnið tilviljanakennt í gegnum aðra á því tímabili. Samskiptum M við barnið hefði verið stjórnað af K á tímabilinu og þau hefðu verið lítil. Matsmaður taldi barnið hafa liðið illa hjá K á tímabilinu. Héraðsdómari taldi að líta yrði meðal annars til þessara atriða þar sem skylda foreldra væri að stuðla að umgengni við það foreldri sem væri ekki forsjárforeldri eða umgengnisforeldri, og að það gilti þrátt fyrir að ekki væri til staðar samkomulag um umgengni.

K sakaði M einnig um tálmun á umgengni en dómurinn taldi ekkert hafa komið fram sem styddi slíkar ásakanir.

Vísað var í að dómafordæmi lægju fyrir um að sameiginleg forsjá kæmi ekki til greina þegar annað foreldrið er talið hæfara, og vísað í nefndarálits vegna ákvæðis sem lögfest var með 13. gr. laga nr. 61/2012, er lögfesti heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá foreldra.

Héraðsdómur féllst því á kröfu M um að hann færi með óskipta forsjá barnsins. Af þeim ástæðum féllst hann einnig á kröfu M um að K myndi greiða honum meðlag. Þá kvað héraðsdómur einnig nánar um fyrirkomulag umgengninnar, og að hún yrði aðallega hjá M.

K áfrýjaði málinu til Landsréttar þar sem hún gerði sömu kröfur og í héraði. Við aðalmeðferð málsins féll hún hins vegar frá öllum dómkröfum fyrir Landsrétti utan greiðslu málskostnaðar. Hún gerði það eftir að sálfræðingur hafði verið fenginn til að kynna sér viðhorf barnsins að nýju og hafði gefið skýrslu um það við aðalmeðferð málsins.

Dómsúrlausnin á vef Landsréttar
RSS-streymi merkimiðans

Þessa stundina virðist ekkert vera tengt við þennan merkimiða.