Fara á yfirlitÚrlausnir Hæstaréttar Íslands
Hrd. 198/2011 dags. 13. október 2011 (Ástarsýki)[HTML] [PDF]G var ákærður fyrir manndráp með því að veitast að A á heimili hans og stinga hann endurtekið með hníf. G hafði orðið ástfanginn af D, en hún var í óskráðri sambúð með A á þeim tíma. G játaði sakargiftir fyrir dómi en taldi sig skorta geðrænt sakhæfi þar sem hann hefði verið haldinn ástarsýki. Fyrir lá í málinu að G hefði skipulagt verknaðinn í þaula fyrir augum að ekki kæmist upp um hann og þar að auki reynt að aftra því að upp um hann kæmist.
Hæstiréttur taldi að aðdragandi voðaverksins, hvernig að því var staðið, og framferði G í kjölfar þess bæri þau merki að G hefði verið fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann réðst á A. G var því dæmdur í 16 ára fangelsi ásamt því að greiða miskabætur til handa foreldrum A ásamt sambýliskonu hans, D.